Leitarvélabestun (Search Engine Optimization | SEO)

Leitarvélabestun er orð sem við mörg sjáum og heyrum reglulega. En fyrir hvað stendur það?

Hvað er leitarvélabestun?

Leitarvélabestun er orð sem notað er yfir það að koma vefsíðum ofarlega í niðurstöðusíður leitarvéla. Óskastaðan er sú að þegar notandi slær inn leitarorð komi þín síða efst á fyrstu niðurstöðusíðu.

Enska hugtakið fyrir leitarvélabestun er "Search Engine Optimization", oftast skammstafað SEO.

Leitarvélabestun í boði

Margir bjóða upp á leitarvélabestun, þ.e. að taka að sér að útbúa vefsvæði þitt þannig það falli vel að leitarvélum og auka þannig líkur á að þín síða komi ofarlega í niðurstöðum þeirra.

Þetta er reyndar orðinn ansi stór geiri, ekki síst þar sem það getur hreinlega verið lífsspursmál fyrir fyrirtæki að birtast ofarlega í leitarvélum. Ímyndum okkur bara tvö fyrirtæki í sama geira. Annað þeirra birtist alltaf efst í leitarvélum. Hvort þeirra skyldi fá fleiri heimsóknir á síðuna sína?

Ég hef náð ágætis árangri í leitarvélabestun með því að fylgja ákveðnum vinnureglum. Síða sem ég kom að uppsetningu á er t.d. í fyrsta sæti á helstu leitarvélunum fyrir ákveðið leitarorð þegar þetta er skrifað.

Leitarvélabestun í verki

Ég sá um uppsetningu á síðunni timaskraning.is. Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá kemur sú síða efst í niðurstöður á Google, Yahoo og Bing leitarvélunum fyrir leitarorðið "tímaskráning". Það var einmitt upphaflegt markmið. Þessi árangur náðist með því að fylgja örfáum einföldum vinnureglum við leitarvélabestun.

Leitarvélabestun í Google Leitarvélabestun í Yahoo Leitarvélabestun í Bing

Hvernig virkar þetta?

Leitarvélar (eins og t.d. Google) skanna vefinn með reglulegu millibili. Þær skrá upplýsingar um vefi og efni þeirra í gagnabanka sinn. Setja það upp á þann hátt að þetta lítur út eins og forgangsröðuð heimilisfangaskrá (mjög stór).

Forgangsröðun í þessa "heimilisfangaskrá" fer eftir mörgum atriðum. Þó eru nokkur atriði sem gott er að gera fyrir leitarvélabestun:

  • Leitarorð í slóð síðu – Hafðu slóð síðunnar (url) með leitarorðinu sem þú vilt að leitarsíðan tengi við hana.
  • Leitarorð í titli síðu – Hafðu titil síðunnar með leitarorðinu sem þú vilt að leitarsíðan tengi við hana.
  • Leitarorð í lýsingu (description) síðu – Gott er að láta leitarorðið birtast í upplýsingum um síðuna.
  • Leitarorð í haus (aðalfyrirsögn) síðu – Láttu leitarorðið birtast í haus (aðalfyrirsögn) síðunnar.
  • Leitarorð í efni síðunnar – Best er að láta leitarorðið birtast sem oftast í efni síðunnar.

Í stuttu máli má segja að þessi þáttur leitarvélabestunar snúist um að efni síðunnar fjalli um eitthvað tengt leitarorðinu.

Tengingar til þín

Leitarvélar eins og t.d. Google meta stöðu þína einnig út frá því hversu margir aðrir sem eru að fjalla um sama málefni vísa á þína síðu. Fjöldi tenginga til þín gefur til kynna að aðrir líti á þitt efni sem viðurkennt og mæli með því.

Í þessu felast líka tengingar frá ýmsum "samfélagsmiðlum" (eins og Google+, Facebook, Twitter og fleirum).

Samantekt

Það er síbreytilegt og erfitt fyrir utanaðkomandi að vita hvernig leitarvélarnar flokka síðurnar nákvæmlega. Í grunninn má þó segja að þær setji efst síður sem hljóta "viðurkenningu" notenda og innihalda efni í takt við leitarorðin.